Húsasmiðjan hefur tapað tæpum milljarði króna á síðustu tveimur árum á sama tíma og 11,2 milljörðum króna af skuldum fyrirtækisins var breytt í nýtt hlutafé. Frá lokum ársins 2008 hafa skuldir Húsasmiðjunnar verið lækkaðar úr 16,8 milljörðum króna í 3,9 milljarða króna, eða um rúmlega 75%. Á sama tíma hefur velta þess dregist saman um rúman þriðjung. Þrátt fyrir tap síðustu tveggja ára, og miklar niðurfærslur á skuldum fyrirtækisins, reiknar stjórn Húsasmiðjunnar ekki með bata í afkomu fyrirtækisins á árinu 2011. Þetta kemur fram í ársreikningum Húsasmiðjunnar.

Búast ekki við bata

Í skýrslu stjórnar í ársreikningi ársins 2010 kemur ennfremur fram að „samdráttur í þjóðarframleiðslu og ekki síður enn meiri samdráttur í byggingastarfsemi hefur minnkað veltu verulega og greiðsluerfiðleikar fyrirtækja og heimila hafa leitt til aukinna tapa og niðurfærslna á viðskiptakröfum. Þótt allur rekstrarkostnaður sé dreginn frá eins og mögulegt er, hefur það ekki dugað til að bæta upp minnkaða framlegð af vörusölu og reksturinn því skilað tapi. Enda þótt hagvísar bendi til viðsnúnings á árinu 2011 er ekki við því að búast að umtalsverður bati verði í rekstrarafkomu ársins.“

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.