Stjórnendur Húsasmiðjunnar hafa í ljósi afar erfiðra aðstæðna í íslensku efnahagslífi ákveðið að endurskoða samninga allra starfsmanna Húsasmiðjunnar, Blómavals, Ískraft og HG Guðjónssonar um eftirvinnu.

Í fréttatilkynningu frá Húsasmiðjunni segir að framvegis muni starfsmenn Húsasmiðjunnar ekki vinna lengur en átta tíma vinnudag á virkum dögum. Ekki verði gripið til uppsagna starfsfólks um mánaðamótin og opnunartími verslana verði að svo stöddu óbreyttur.

„Markmið þessara aðgerða er að ná fram hagræðingu í rekstri til að mæta minni eftirspurn en komast um leið hjá uppsögnum. Í sumum tilvikum henta þessar breytingar starfsmönnum sem vilja fækka vinnustundum og reynt verður eins og kostur er að bjóða þeim sem þess óska að vinna upp eftirvinnumissi með aukinni helgarvinnu. Aðgerðirnar voru unnar í samráði við verkalýðsfélög og Samtök atvinnulífsins,“ segir í tilkynningu Húsasmiðjunnar.