Undirritaður hefur verið samningur um kaup Húsasmiðjunnar hf. á rekstri KB Byggingavara í Borgarnesi. Stefnt er að því að afhending rekstrarins fari fram um miðjan október næstkomandi. Í kjölfarið mun Húsasmiðjan breyta verslun KB í Borgarnesi í Húsasmiðjuverslun með stórauknu vöruúrvali og fjölbreyttri þjónustu en Húsasmiðjan hefur á boðstólum yfir 80 þúsund vörutegundir í verslunum sínum.

"KB hefur um áratugaskeið rekið byggingavöruverslun í Borgarnesi en hættir nú þeirri starfsemi. KB mun hins vegar áfram reka búrekstrarvörudeild með sama sniði og verið hefur. Húsasmiðjuverslunin verður staðsett í verslunarhúsnæði KB Byggingavara, sem er nýtt 2000 fm. hús við Egilsholt. Að auki fylgir versluninni mikið útisvæði sem Húsasmiðjan mun nýta til að stórauka vöruframboð í timbri og annarri þungavöru til hagsbóta fyrir verktaka, fagmenn, sumarbústaðaeigendur og aðra viðskiptavini á svæðinu," segir Árni Hauksson, forstjóri Húsasmiðjunnar. "Að sjálfsögðu verður verð í Húsasmiðjuversluninni í Borgarnesi það sama og í öllum öðrum verslunum Húsasmiðjunnar um land allt."

Árni segir að hjá Húsasmiðjunni sé lögð mikil áhersla á að veita framúrskarandi þjónustu og verður nýja verslunin í Borgarnesi þar engin undantekning. "Á meðal átta starfsmanna hennar, sem allir munu halda störfum sínum, eru fagmenn sem eru reiðubúnir að veita ráðgjöf við val á byggingarefni og meðferð þess. Rekstrarstjóri verslunarinnar verður eftir sem áður Valdimar Björgvinsson." Húsasmiðjan er stærsti söluaðili byggingavara á Íslandi og verður Húsasmiðjuverslunin í Borgarnesi sú 18. í röð Húsasmiðjuverslana um land allt.