Viðamiklar breytingar standa nú yfir í stærstu verslunum Húsasmiðjunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þær felast í að á annan tug sérfræðinga og ráðgjafa sem hafa haft aðstöðu í timbursölu Húsasmiðjunnar í Súðarvogi flytja starfsemi sína í aðgengilegra rými í nýrri timburmiðstöð í verslun Húsasmiðjunnar í Grafarholti.

Steinn Logi Björnsson, forstjóri Húsasmiðjunnar, segir að þar með verði yfir hálfrar aldar starfsemi Húsasmiðjunnar í Súðarvogi lokað að undanskildu smíðaverkstæði.

„Það má segja að þetta sé með viðamestu breytingum sem Húsasmiðjan hefur ráðist í hin síðari ár. Við færum þjónustuna nær viðskiptavinunum, sem geta nú fengið aðstoð okkar færustu fagmanna í rúmgóðu verslunarrými þar sem aðgengi að vörunni er betra en áður.”

Hann segir þetta lið í viðamiklum aðgerðum sem staðið hafa yfir síðan á síðasta ári. Þá var versluninni Egg á Smáratorgi lokað sem og verslun í Ögurhvarfi og pípulagningarbúðinni í Skútuvogi. Var þá einnig tilkynnt um uppsagnir um 200 starfsmanna en uppsagnarfrestur þeirra rann út 1. mars. Var það til viðbótar fækkun sem áður hafði orðið. Eftir standa um 700 af 1.000 starfsmönnum Húsasmiðjunnar.

Segir Steinn Logi að allt miði það að því að hagræða og standa af sér þau áföll sem nú ríða yfir þjóðfélagi. Breytingarnar nú eigi sér þó líka lengri forsögu.

„Þegar við byggðum Grafarholtsverslunin á sínum tíma sem opnuð var 2005, var hún byggð með það í huga að hún yrði timburmiðstöð eins og við erum að setja upp núna. Því erum við loks að fullnýta húsnæðið. Um leið er þetta augljóst hagræðingartækifæri.

Þá gerum við það líka að í verslun okkar í Skútuvogi setjum við nú inn öfluga timburráðgjöf og sölu sem ekki hefur verið þar áður.

Með breytingunum verður til stærsta byggingavöru-, timbur og garðverslun á Íslandi undir einu þaki. Með þessu er einnig ætlunin að aðgengi fagmanna og almennings að ráðgjöfum Húsasmiðjunnar verði mun betri en áður,” segir Steinn Logi Björnsson.

Sýningarsalur nýju timburmiðstöðvarinnar býður upp á að hægt sé að sýna vörur mun betur en áður og auka aðgengi viðskiptavina að byggingavörum og byggingalausnum. Í flestum tilvikum verður hægt að taka vöruna beint heim í stað þess að þurfa að sækja hana á lager eins og áður hefur þurft. Nýja timburmiðstöðin verður opnuð formlega á föstudaginn 6. mars næstkomandi.