Stjórnendur Húsasmiðjunnar hafa ákveðið að segja upp 99 starfsmönnum í fullu starfi til að bregðast að versnandi aðstæðum í byggingariðnaði og óhagstæðri gengisþróun.

Starfsmönnum í hlutastarfi verður einnig sagt upp fyrir mánaðamót.

Breytingarnar voru kynntar á starfsmannafundum í Húsasmiðjunni um allt land nú undir kvöld. Um 750 manns starfa hjá fyrirtækinu.

Þeim starfsmönnum sem fá uppsagnarbréf verður boðin sérfræðiaðstoð hjá fyrirtækinu Þekkingarmiðlun, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Byggingariðnaður hefur staðnað

Steinn Logi Björnsson, forstjóri Húsasmiðjunnar, segir í tilkynningu að grípa hafi þurft til þessara aðgerða þar sem byggingariðnaður á höfuðborgarsvæðinu hafi  staðnað vegna skorts á fjármagni. Auk þess sé gengisþróun óhagstæð.

„Þessar aðgerðir snúast um að koma Húsasmiðjunni í gegnum þá erfiðleika sem framundan eru og tryggja sem flest störf til framtíðar. Við hagræddum í rekstrinum um síðustu mánaðamót með því að endurskoða alla samninga starfsmanna um eftirvinnu. Þær aðgerðir tókust vel og við héldum að þær dygðu um sinn. En vegna mjög neikvæðra utanaðkomandi áhrifa síðustu vikurnar eigum við ekki annars úrkosta en að grípa til frekari aðgerða,“ segir hann í tilkynningu