Húsasmiðjan tapaði 815 milljónum króna á árinu 2009 þrátt fyrir að rúmlega tíu milljörðum króna af skuldum félagsins við Landsbankann væri breytt í hlutafé.

Vestia, dótturfélag Landsbankans, skráði sig síðan fyrir hinu nýja hlutafé og er að fullu eigandi Húsasmiðjunnar. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins sem var birtur í vikunni.

Tekjur af rekstri Húsasmiðjunnar drógust alls saman um 5,3 milljarða króna á milli ára, tæp 30%, og útskýrist það að mestu leyti vegna samdráttar í sölu.

Eignir félagsins drógust saman úr 8,1 milljarði króna í 6,6 milljarða króna og eigið fé var jákvætt um 583 milljónir króna.

Skuldir Húsasmiðjunnar voru afskrifaðar að miklu leyti. Þær námu 16,9 milljörðum króna í árslok 2008 en voru um sex milljarðar króna um síðustu áramót.