Á Húsavík er nú verið að undirbúa opnun menningarstofnunar í samvinnu heimamanna og Svía. Snýst það um að hefja til vegs og virðingar komu sænska víkingssins Garðars Svavarssonar til þessa lands á níundu öld. Garðar var fyrstur norrænna manna til að uppgötva að landið var eyja og kallaði það Garðarshólma. Dvaldi hann einn vetur í landinu og reisti sér hús þar sem nú heitir Húsavík. Það er Húsavíkurbær og Norður -Sigling sem standa að þessu verkefni að hálfu heimamanna með þátttöku Svía.

„Þetta á að verða sænsk-íslensk menningarmiðstöð með starfsemi allt árið," segir Hörður Sigurbjarnarson, framkvæmdastjóri Norður-Siglinga. „Þessi menningarmiðstöð verður opnuð 24. júlí árið 2011."

Segir Hörður að nú séu háttsettir sænskir embættismenn í heimsókn á Húsavík af þessu tilefni og taki um leið þátt í hátíðinni Sænskum dögum sem þar er haldin í fimmta sinn.

„Þetta er í þriðja skiptið sem þeir koma og við væntum okkur mikils af þessari starfsemi því hún mun standa yfir allt árið og því yfir lengra tímabil en Hvalaskoðunin. Í fyrra komu hingað sænskri ráðherrar."

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands var viðstaddur opnun sænskra daga um helgina. Er hann jafnframt verndari menningarmiðstöðvarinnar ásamt Karli Gústaf konungi Svía.

Hafin er vinna við heimildaröflun og búið er að ákveða að taka vannýtt húsnæði í eigu bæjarins á hafnarsvæðinu undir menningarmiðstöðina. Þar voru áður verbúðir og verður húsið tekið í gegn fyrir nýtt hlutverk.

Þess má til gamans geta að einn af skipverjum Garðars Svavarssonar var Náttfari sem að sumir segja að fyrir slysni hafi hrakist í land í Náttfaravík þegar Garðar hélt aftur af stað úr landi. Með Náttfara var þræll og ambátt og eignaði Náttfari sér Reykjadal löngu áður en Ingólfur Arnarson settist að í Reykjavík í annarri ferð sinni til Íslands. Telja margir að það hafi verið fyrir vísvitandi þöggun að Náttfari hafi ekki verið talin fyrsti raunverulegi landnámsmaðurinn fyrir utan papa sem heldur hafa ekki átt upp á pallborðið hjá sagnariturum fyrri alda.