Alcoa og ríkisstjórn Íslands undirituðu í dag samkomulag þess efnis að kanna hagkvæmni þess að reisa nýtt 250.000 tonna álver á Bakka við Húsavík.

Verði af byggingu mun álverið nota rafmagn sem að mestu verður framleitt með vistvænni jarðvarmaorku og gæti þá hugsanlega orðið fyrsta álverið í heiminum sem knúið er rafmagni framleiddu með slíkum orkugjafa. Fyrstu framkvæmdir á svæðinum munu ekki hefjast fyrr en árið 2010 í fyrsta lagi ef til framkvæmdanna kemur.

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra sagði á fréttamannafundi í New York í dag, að staðarvalið væri mikilvægur áfangi í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar.

Bernt Reitan, aðstoðarforstjóri Alcoa Corporation, sagði á fundinum í dag, að forsvarsmenn fyrirtækisins væru stoltir af því að hafa verið fyrsti valkostur íslenskra stjórnvalda þegar kom að því að velja samstarfsaðila við undirbúningsrannsóknir fyrir nýtt, hugsanlegt álver á Norðurlandi. En Reitan tók þó einnig fram að ennþá væir margt sem þyrfti að huga að sérstaklega hvað varðar afhendingu orku til framleiðslunnar og verð á henni.

Eins og viðskiptablaðið greindi frá í ítarlegri úttekt í dag þá munu ákvarðanir um frekari stóriðjuframkvæmdir hafa margvísleg áhrif á efnhagslífið og búast margir að í kjölfar þessarar tilkynningar megi strax búast við hækkun krónunnar. Einnig má færa rök fyri því að ákvörðunin muni hvetja til frekari útgáfu krónubréfa.

Stemmninginn í Húsavík er eflaust góð í kjölfar þessarar tilkynningar en nýleg könnun leiddi í ljós að 80% íbúa Húsavíkur og nágrennis væri hlynntur byggingu álvers á svæðinu og hafa íbúar húsavíkur safnast saman í dag á álvöku til að bíða tilkynningar Alcoa.

Aðrir staðir sem einnig voru skoðaðir gaumgæfilega á Norðurlandi voru Brimnes í Skagafirði og Dysnes í Eyjafirði. Þetta er í fyrsta sinn sem svo umfangsmikil samanburðarrannsókn hefur verið gerð fyrir opnum tjöldum hérlendis í aðdraganda staðarvals fyrir stóriðju.