Í vikunni var undirrituð sameiginleg viljayfirlýsing ríkisstjórnarinnar, Húsavíkurbæjar og Alcoa um undirbúning að byggingu álvers við Húsavík en rannsóknum vegna þess á að vera lokið um mitt ár 2008. Orkuþörf álversins verður um 3500 gígavattstundir á ári eða um 400 megavött.

Alcoa, ríkisstjórnin og Húsavíkurbær hafa undirritað viljayfirlýsingu um áframhaldandi rannsóknir á fjárhagslegri hagkvæmni nýs álvers á Norðurlandi með 250.000 tonna framleiðslugetu á ári. Viljayfirlýsingin fylgir í kjölfar samkomulags frá því í mars sl. um staðarval fyrir hugsanlegt álver á Bakka við Húsavík. Viljayfirlýsingin kveður á um þá vinnu sem Alcoa, ríkisstjórnin og Húsavíkurbær skuldbinda sig til að fara í svo unnt verði að ná niðurstöðu um hvort Alcoa reisir álver á Bakka.

Hagkvæmnirannsóknin skiptist í þrjá áfanga en þeim lýkur hverjum um sig í október 2006. mars 2007 og júní 2008. Samkvæmt viljayfirlýsingunni verður hægt að byggja álverið í áföngum en með því móti yrði hægt að hefja framleiðslu ef orka kynni að verða fáanleg fyrr en ráðgert hefur verið. Orkuþörf álversins verður um 3500 gígavattstundir á ári eða um 400 megavött. Samhliða viljayfirlýsingunni sem ríkisstjórnin, Alcoa og Húsavíkurbær undirrituðu mun Alcoa semja við Landsvirkjun um raforkusölu og við Landsnet um orkuflutning.

Frekari rannsóknir varðandi hagkvæmni byggingar hugsanlegs álvers felast m.a. í athugunum á jarðfræði svæðisins, umhverfisáhrifum, landbúnaði, náttúruminjum og fornleifum, áhrifum á nágrannasveitarfélög, landeigendur og samfélag, ásamt þörfum varðandi innviði sveitarfélaganna og fleiru.

Fyrsta og öðrum áfanga mun ljúka með áfangaskýrslum sem og ákvörðun um hvort haldið verði áfram í næsta áfanga. Samkvæmt þriðja áfanga mun Alcoa skila Skipulagsstofnun skýrslu um mat á umhverfisáhrifum álvers á Bakka, ljúka útreikningum á fjárhagslegri hagkvæmni álversins og staðfesta áframhaldandi þátttöku sína í verkefninu."