*

fimmtudagur, 21. október 2021
Innlent 22. apríl 2021 18:01

Húsdýragarður fær ekki lokunarstyrk

Yfirskattanefnd staðfesti ákvörðun um að synja húsdýragarðinum um lokunarstyrk, enda hafi honum ekki verið skylt að loka.

Ritstjórn
Á meðal safngripa húsdýragarðsins er sauðfé.

Yfirskattanefnd (YSKN) hefur staðfest ákvörðun ríkisskattstjóra um að hafna beiðni húsdýragarðs um lokunarstyrk. Nefndin taldi starfsemi húsdýragarðsins ekki verða lagða að jöfnu við starfsemi sem felur í sér sérstaka smithættu.

Ríkisskattstjóri hafnaði umsókn húsdýragarðsins um lokunarstyrk í lok september á síðasta ári. Ákvörðunin byggði á því að starfsemi húsdýragarðs félli ekki undir ákvæði laga um starfsemi sem skylt hefði verið að láta af samkvæmt þágildandi takmörkun á samkomum vegna farsóttar.

Fram kom í ákvörðun ríkisskattstjóra að um væri að ræða starfsemi sem hefði sætt fjölda- og nálægðartakmörkunum eða takmörkunum á opnunartíma, og því hefði verið hægt að viðhalda starfsemi í einhverri mynd og aðlaga hertum sóttvörnum.

Litu á það sem skildu sína að loka

Húsdýragarðurinn kærði ákvörðun ríkisskattstjóra til YSKN undir lok síðasta árs. Í kærunni er bent á að þótt húsdýragarðar séu ekki sérstaklega taldir með sundlaugum, skemmtistöðum og söfnum í ákvæðum laganna um starfsemi sem feli í sér sérstaka smithættu, sé margt líkt með starfsemi þessara aðila, enda heyri húsdýragarðar undir safnalög hjá embætti ríkisskattstjóra.

Húsdýragarðurinn sé meðal annars safn þar sem sýnd séu fræðsluspjöld um íslensku sauðkindina og nú sé unnið að sams konar sýningu um íslenska refinn. Þá séu dýr til sýnis í garðinum sem þannig sé ekkert annað en lifandi safn. Söfn séu æði misjöfn og í húsdýragarðinum sé jafnan meiri erill og „hasar" en á bókasafni auk þess sem nálægð fólks sé meiri og sameiginlegir snertifletir fleiri.

Fram kemur í kærunni að engin haldbær rök séu til þess að ákjósanlegra hafi verið að halda húsdýragarðinum opnum frekar en til dæmis bókasafni. Hafi ekki verið unnt að gera viðeigandi sóttvarnarráðstafanir á bókasöfnum hafi þess enn síður verið kostur í húsdýragarðinum. Fyrirsvarsmenn húsdýragarðsins hafi sem ábyrgir borgarar litið á það sem skyldu sína að loka garðinum til að koma í veg fyrir smit.

YSK féllst ekki á með húsdýragarðinum að honum hefði verið skylt að láta af þeirri starfsemi um vorið 2020 vegna faraldursins. Var ekki talið að starfsemi kæranda, sem að minnsta kosti að hluta fór fram utandyra eftir því sem ráðið varð, yrði lögð að jöfnu við íþróttastarf og starfsemi hárgreiðslustofa, snyrtistofa og nuddstofa sem fæli í sér sérstaka smithættu samanber þágildandi auglýsingu um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Var kærunni af þeim sökum hafnað.