Arnar Gauti Reynisson, framkvæmdastjóri leigufélagsins Heimavalla, segir það almennt hafa gefist betur að eiga heilar blokkir eða meirihluta íbúða fjölbýlishúsa. „Yfirleitt eigum við heil hús. Að eiga fullt af íbúðum í húsi, en vera samt í minnihluta, er ekki eftirsóknarverð staða. Þú ræður ekki yfir meirihluta atkvæða, en samt ætlast aðrir eigendur til þess að þú takir af skarið í öllu. Þá er bara betra að eiga eina eign og láta lítið fyrir sér fara. Ef við eigum alla blokkina þá þarf til dæmis ekki að starfrækja húsfélag, þá berum við bara ábyrgð á öllu viðhaldi og allri umsýslu við húsið, og sinnum því bara eftir okkar hentisemi.“

Séu fleiri eigendur í fjölbýlishúsi þarf vitanlega að stofna húsfélag, en eigi félagið meirihluta íbúða fer það eðli máls samkvæmt með úrslitaákvörðunarvald innan þess. Í þeim tilvikum hafa Heimavellir tekið að sér rekstur húsfélagsins, og tekið þóknun fyrir, á sama hátt og önnur fyrirtæki sem slíka þjónustu veita. „Það gengur bara ágætlega, það samstarf. Þá bara rekum við húsið, pössum upp á viðhald og sjáum um þrif og þar fram eftir götunum. Aðrir eigendur borga svo bara í hússjóð á móti okkur. Almennt vill fólk helst sem minnst vita af húsfélagi, þó það vilji auðvitað að það sé vel rekið.“

Hann segir vel koma til greina að útvíkka þá starfsemi þegar fram í sækir, enda sé sá hluti arðbær óháð samlegðaráhrifum við leigureksturinn. „Þetta er tekjupóstur sem hefur aðeins vaxið hjá okkur og við sjáum alveg fyrir okkur að geti vaxið enn frekar. Við höfum alla burði til að taka þetta að okkur fyrir þriðja aðila, og höfum alveg velt því fyrir okkur, en sem stendur viljum við fyrst og fremst bjóða upp á þetta þar sem við eigum meirihluta íbúða. Við höfum ekki viljað keyra of hratt á þetta og vera allt í einu komin með 100 húsfélög.“

Nánar er rætt við Arnar Gauta í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .