Húsleit á vegum gjaldeyriseftirlits Seðlabankans með aðstoð Embættis sérstaks saksóknara vegna gruns um brot Samherja á lögum um gjaldeyrisviðskipti stendur enn yfir. Leitin hófst um níuleytið í morgun og taka um 25 manns þátt í henni. Leitað er á tveimur starfsstöðvum Samherja á Akureyri og í Reykjavík auk þess sem leitað er gagna hjá fyrirtæki sem þjónustað hefur Samherja og er með starfsemi bæði á Akureyri og í höfuðborginni.

Ekki liggur fyrir hvort einhver hafi verið færður til skýrslutöku vegna málsins eða hvort og þá hversu mikils magns gagna hefur verið aflað. Þá hefur Viðskiptablaðið ekki fengið uppgefið hvert farið verði með gögnin.

Rannsókn málsins er á forræði Seðlabankans. Fram kom fyrr í dag að gögn Kastljóss RÚV tengd umfjöllun um útflutning sjávarafurða hafi orðið til þess að gjaldeyriseftirlit Seðlabankans hóf rannsóknin á Samherja.