Starfsmenn embættis sérstaks saksóknara, lögreglumenn og erlendir sérfræðingar á sviði endurskoðunar gerðu húsleitir á tveimur endurskoðunarskrifstofum í dag, KPMG og PriceWaterhouseCoopers.  Þær hófust kl. tíu í morgun og tóku þátt í þeim 22 manns.

Húsleitirnar tengjast rannsókn embættis sérstaks saksóknara á starfsemi og reikningsskilum Glitnis, Kaupþings og Landsbanka Ísland.

„Tilgangur húsleitanna var að leita að og haldleggja sönnunargögn í þágu rannsókna á ýmsum sakarefnum sem þegar hafa verið tekin til rannsóknar af hálfu embættisins," segir í yfirlýsingu frá sérstökum saksóknara.

„Til rannsóknar eru m.a. grunur um skjalabrot skv. 17. kafla almennra hegningarlaga, auðgunarbrot skv. 26. kafla almennra hegningarlaga, brot gegn lögum um bókhald og ársreikninga, brot gegn lögum um fjármálafyrirtæki og verðbréfaviðskipti og loks brot gegn hlutafélagalögum. Til grundvallar húsleitunum liggur m.a. athugun fransks endurskoðanda á ársreikningum bankanna."