Húsleit var gerð hjá félaginu Q Iceland Finance ehf. í morgun en það er skráð til húsa að Suðurlandsbraut 18, eða í sama húsnæði og Fulltingi lögfræðiþjónustu. Húsleitin tengist rannsókn sérstaks saksóknara á kaupum félagsins á 5,01% hlut í Kaupþing banka í september sl.

Telma Halldórsdóttir, lögmaður hjá Fulltingi, er eini stjórnarmaður umrædds félags.

Hún hefur ekki svarað ítrekuðum símtölum Viðskiptablaðsins í dag. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins skoðuðu starfsmenn embættis sérstaks saksóknara gögn félagsins á skrifstofunni í morgun en þau má finna í einni skrifborðsskúffu.

Móðurfélagið Q Iceland Finance ehf. heitir Q Iceland Holding og er það skráð til húsa að Efstaleiti 5, eða í sama húsnæði og LOGOS lögmannsþjónusta.

Guðmundur Jóhanness Oddsson lögmaður LOGOS er skráður í stjórn félagsins, ásamt þeim Sultan M.J. Al-Thani, sem er formaður stjórnar, og Mohamed bin Khalifa Al-Thani.

Eins og fram hefur komið í fréttum í dag hafa starfsmenn sérstaks saksóknara gert húsleitir á tíu stöðum vegna fyrrgreindrar rannsóknar. Húsleitirnar fóru fram að undangengnum úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur.

„Til rannsóknar er grunur um meinta markaðsmisnotkun og eftir atvikum brot á auðgunarbrotakafla hegningarlaga í tengslum við umrædd kaup á hlutabréfum í bankanum í lok september 2008," segir í tilkynningu frá embættinu.

„Um er að ræða verulega fjárhagslega hagsmuni og rannsóknin tengist fjölda manns. Yfirheyrslur vegna rannsóknarinnar eru hafnar af hálfu embættisins."