Starfsmenn á vegum embættis sérstaks saksóknara gerðu húsleit hjá endurskoðendafyrirtækinu KPMG í morgun. Málið tengist rannsókn embættisins á málum tengdum Milestone og Sjóvá, fyrirtækjum að mestu í eigu þeirra Karls og Steingríms Wernerssona. Húsleitin sneri að afmörkuðum lið í rannsókn embættisins á félögunum.

Embættið mun hafa fengið þau gögn sem óskað var eftir.

Þrír voru færðir til skýrslutöku hjá embætti sérstaks saksóknara í tengslum við málið. Rannsóknin á Sjóvá og Milestone er með elstu rannsóknum embættisins.

Upp úr rannsókn embættis sérstaks saksóknara á Sjóvá og Milestone hafa komið nokkur mál. Þar á meðal er ákæran á hendur Lárusi Welding, fyrrverandi forstjóra Glitnis, og öðrum starfsmönnum bankans sem tengjast rannsókn embættisins á Vafnings-málinu svokallaða.

„Það er að hilla í endapunkta í þessum málum sumum hverjum“, segir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari.