Húsleitir standa nú samtímis yfir víðvegar á Íslandi og í London á vegum embættis sérstaks saksóknara og Serious Fraud Office (SFO), efnahagsbrotadeildar bresku lögreglunnar.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að um sé að ræða einhverjar víðtækustu húsleitaraðgerðir sem íslensk yfirvöld hafi tekið þátt í. Starfsmenn SFO eru að leita hjá íslenskum aðilum sem staðsettir eru í London.

Ekki fékkst staðfest vegna hvaða rannsóknar húsleitirnar séu framkvæmdar en von er á tilkynningu frá embætti sérstaks saksóknara síðar í dag.

SFO hefur verið í samstarfi við embættið undanfarna mánuði og nýtur meðal annars liðsinnis þess í rannsókn sinni á starfsháttum Kaupþings, sem tilkynnt var um í desember síðastliðnum. Embætti sérstaks saksóknara vildi ekki svara því hvort að sú rannsókn SFO tengdist húsleitunum í dag þar sem að embættinu væri ekki heimilt að tjá sig um rannsóknir erlendra samstarfsaðila.