Embætti sérstaks saksóknara framkvæmdi húsleitir á tveimur stöðum í dag vegna rannsóknar sinnar á kaupa Exeter Holdings ehf. á stofnbréfum í Byr sparisjóði haustið 2008. Yfirheyrslur yfir aðilum tengdum málinu hófust einnig í dag og standa enn yfir. Þetta kemur farm í yfirlýsingu frá sérstökum saksóknara.

Yfirlýsing sérstaks saksóknara í heild:

Í tengslum við rannsókn embættis sérstaks saksóknara á kaupum félagsins Exeter Holdings ehf. á stofnbréfum í BYR sparisjóði  haustið  2008 fóru fram húsleitir á tveimur stöðum í dag  að undangengnum úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur. Yfirheyrslur í málinu hófust á sama tíma og standa enn.

Til rannsóknar er grunur um brot á auðgunarbrotakafla almennra hegningarlaga í tengslum við umrædda sölu á stofnbréfum og lánagerningum þeim tengd.  Um er að ræða verulega fjárhagslega hagsmuni og rannsóknin tengist fjölda manns.

Aðgerðirnar í dag voru nokkuð víðtækar og hófust með leit á tveimur stöðum samtímis kl. 10 í morgun. Af 22 starfsmönnum embættisins tóku flestir þátt í aðgerðunum  auk tæknimanna frá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.