Átta aflandsfélög í eigu Landsbankans, sem stofnuð voru utan um kauprétti starfsmanna, voru látin kaupa alls 13,2% hlut í bankanum sem gerðu þau samanlagt að næststærsta eiganda hans. Öll félögin lutu stjórn æðstu stjórnenda Landsbankans án þess að smærri hluthafar, fjárfestar eða eftirlitsaðilar hefðu hugmynd um það, enda var þess aldrei getið í ársskýrslum né tilkynnt um það á markaði. Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Félögin voru skráð í Panama, á Tortóla og Guernesey. Upphaflega fengu þau öll lán fyrir kaupum á hlutabréfum í Landsbankanum hjá bankanum sjálfum.

Í dag fóru fram húsleitir á þremur stöðum á vegum Embættis sérstaks saksóknara vegna mála tengdum Landsbankanum. Meðal þeirra eru meint markaðsmisnotkun bankans og kaup á hlutabréfum í bankanum af hálfu félaga sem héldu um kauprétti starfsmanna bankans og lánveitingar til þeirra.