*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 22. febrúar 2021 08:10

Húsnæði Hlemms Square til sölu

Húsnæðið sem áður hýsti hostelið Hlemm Square hefur verið sett á sölu. Möguleiki á að breyta öllu húsnæðinu í íbúðarhúsnæði.

Ritstjórn
Veitingastaðurinn Pylsa eða Pulsa var á Hlemmi Square forðum daga.
Aðsend mynd

Húsnæðið á Laugavegi 105 við Hlemm, sem áður hýsti hostelið Hlemm Square, hefur verið auglýst til sölu.

Samkvæmt auglýsingu á vef fasteignasölunnar Mikluborgar er um að ræða 1., 3., 4., og 5. hæð hússins ásamt kjallara og gefst nýjum eigendum kostur á áframhaldandi gisti- og hótelstarfsemi, enda öll tilskilin leyfi til staðar.

Þá kemur fram að fyrir liggi jákvæð umsögn skipulagsyfirvalda í Reykjavík um að breyta öllu húsnæðinu í litlar- og meðalstórar íbúðir sem geti orðið allt að 48 talsins.

Hlemmur Square lokaði í nóvember vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins, að því er fram kom í tilkynningu forsvarsmanna á þeim tíma. Reksturinn hafði þó gengið brösulega fyrir faraldurinn, en í janúar í fyrra fór ríkisskattstjóri fram á nauðungarsölu húsnæðisins, líkt og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma en í fréttinni kemur meðal annars fram að félagið sem rak Hlemm Square hafi skilað tugmilljóna tapi árin 2018 og 2017.

Stikkorð: Hlemmur square