Húsnæði TM við Síðumúla er auglýst til leigu hjá fasteignasölunni Remax. TM sameinaðist Kviku banka fyrr á árinu og segir Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku, að til framtíðar sé stefnan að sameina félögin undir einu þaki, enn sé þó nokkuð í að af því verði.

„Við höfum ekki tekið ákvörðun um flutning TM, en til framtíðar er stefnt að því að sameina félögin undir einu þaki. Það að auglýsa húsnæðið til leigu er liður í því að kanna áhuga mögulegra leigjenda á húsnæðinu. Ákvarðanir um næstu skref verða meðal annars byggðar á því hvað kemur út úr því," segir Marinó.

TM flutti í húsnæðið við Síðumúla í byrjun árs 2009, en þá var félagið í eigu Stoða sem var með skrifstofur í húsinu á þeim tíma. Stoðir varð aftur stærsti hluthafi TM árið 2019 og er stærsti hluthafinn í sameinuðu félagi TM og Kviku.

Húsnæðið, sem er í eigu BYGG, er um 3108 fermetrar á fjórum hæðum, þar af er jarðhæðin stærst, um 1025 fermetrar. Önnur og þriðja hæð eru um 892 fermetrar hvor og fjórða hæðin um 298 fermetrar, en þar eru eldhús, matsalur og stór fundarsalur.