Gjaldeyrishöftin ýta undir húsnæðisverð hérlendis, byggingarvísitalan hefur hækkað um 40,1% frá því á síðasta ársfjórðungi 2010. Að meðaltali hefur verð á húsnæði hækkað um 11,3% síðan markaðurinn náði botninum í lok árs 2009. Vegna haftanna leita fjárfestar inn á fasteignamarkaðinn sem veldur húsnæðisbólu.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í umfjöllun Bloomberg fréttastofu um íslenska fasteignamarkaðinn og gjaldeyrishöftin. Haft er eftir Ásgeiri Jónssyni, prófessor í hagfræði, að ef ekkert verður að gert mun fasteignabóla myndast á innan við tveimur árum. Meiri líkur séu á að slík bóla myndist vegna gjaldeyrishaftanna.

Ólafur Ísleifsson, prófessor við Háskólann í Reykjavík, segir spurninguna vera þá hvort stjórnvöld eigi að bregðast við. Það hafi verið við því að búast að hluti fjármuna sem sitji hér fastir leiti í fasteignir.