Í gær voru samþykkt á Alþingi þrjú húsnæðisfrumvörp Eyglóar Harðardóttur Félags- og húsnæðismálaráðherra en það fjórða hafði verið samþykkt í apríl. Lögin um almennar íbúðir, húsnæðisbætur, húsaleigulög auk laganna um húsnæðissamvinnufélög varða stórtækar breytingar á umgjörð húsnæðismarkaðarins á Íslandi.

Lög um almennar íbúðir

Ætlunin er með lögum um almennar íbúðir að bæta húsnæðisöryggi efnaminni fjölskyldna og einstaklinga með því að auka aðgengi og tryggja að kostnaður við húsnæðið sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda. Áður hefur komið fram að miðað verður við að húsnæðiskostnaður verði í kringum fjórðung af heildartekjum fólks.

Fela lögin í sér að leiguíbúðir fyrir þá sem teljast til tveggja tekjulægstu fimmtunganna verði að hluta fjármagnaðar með stofnframlögum úr ríkissjóði og frá sveitarfélögum, en þau fjalla um almenna umgjörð, rekstur og úthlutun þeirra.

Lög um húsnæðisbætur

Með lögum um húsnæðisbætur er verið að færa stjórnsýslu og umsýslu húnsæðisbóta til ríkis frá sveitarfélögunum þó sveitarfélögin sjái áfram um greiðslu sérstaks húsnæðisstuðnings. Er markmiðið að lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda.

Lagabreytingar á húsaleigulögum

Lög um breytingu á húsaleigulögum á er að auka réttaröryggi leigjenda og koma samskiptum leigjenda og leigusala í fastara horf, til að reyna að komast hjá myndun ágreinings.

Húsnæðissamvinnufélög

Lögin um húsnæðissamvinnufélög sem samþykkt voru í apríl er að gera húsnæðissamvinnufélögum kleyft að starfa, sem og að skýra réttarstöðu búseturétthafa í þeim og auka vernd þeirra. Bæði ASÍ og BSRB hafa samþykkt að koma af stað slíku félagi.