Húsnæðiskostnaður á Íslandi er heilt yfir ekki meiri en annars staðar. Þvert á móti var Ísland miðja vegu í Evrópu árið 2013 þegar litið er til húsnæðiskostnaðar sem hlutfall af ráðstöfunartekjum. Þá erum við með næstlægsta hlutfallið af Norðurlöndunum. Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá Landsbankans .

Í hagsjánni kemur fram að ef marka megi umræðuna á Íslandi, þá virðist sem húsnæðiskostnaður hér sé mun hærri en annars staðar. Þegar tölurnar eru skoðaðar kemur allt annað í ljós. Almennt hefur byrði húsnæðiskostnaðar heimila verið nokkuð stöðug og jafnvel farið lækkandi á síðustu 10 árum. Húsnæðisbyrði leigjenda hefur þó aukist talsvert á sama tímabili.

Ef litið er á verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað er Ísland í miðjum hópi Evrópuþjóða. Á árinu 2013 bjó um 9% heimila við verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað. Meðaltal á Norðurlöndunum er 10% í þessum þætti og þá búa 18% heimila í Danmörku við íþyngjandi húsnæðiskostnað. Staða Dana vekur sérstaka athygli þar sem þeirra íbúðalánakerfi er mikið í umræðunni á Íslandi. Danir eru meðal þeirra þjóða sem skulda mest vegna húsnæðis og byrði þeirra vegna húsnæðiskostnaðar er meiri en flestra annarra.