*

föstudagur, 19. júlí 2019
Innlent 29. maí 2017 14:21

Húsnæðisliðurinn áfram í bílstjórasætinu

Greiningadeild Arion banka segir fátt benda til annars en áframhaldandi hækkana á húsnæðismarkaði á komandi mánuðum.

Pétur Gunnarsson
Húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hélt aftur á móti áfram að gefa í og hækkaði fjölbýli um 2,9% milli mánaða en sérbýli um 2,34%.
Haraldur Guðjónsson

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,2 prósentustig milli mánaða í apríl og lækkar því ársverðbólgan úr 1,9 prósent í 1,7 prósent. Húsnæðisliðurinn er langsamlega fyrirferðamestur og ef litið er fram hjá honum mælist verðhjöðnun upp á -2,6 prósentustig eins og áður hefur verið greint frá. 

Greiningardeild Arion banka spáir því að verðlag hækki um 0,3 prósentustig í júní og lækki svo um -0,4 prósentustig í júlí og hækki um 0,3 prósentustig í ágúst. Gangi spá bankans eftir mun ársverðbólgan standa í 1,7 prósentum í ágúst. 

Árstakturinn kominn í 22,5%

Húsnæðisverð hækkaði um 2,54 prósentustig milli mánaða, en það hægði örlítið á hækkunum milli mánaða aðallega vegna minni hækkana á landsbyggðinni. „Húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hélt aftur á móti áfram að gefa í og hækkaði fjölbýli um 2,9% milli mánaða en sérbýli um 2,34%. Árstakturinn á landinu öllu er kominn í 22,5% og fátt sem bendir til annars en áframhaldandi hækkana á komandi mánuðum. Húsnæðisliðurinn verður því að öllum líkindum áfram í bílstjórasætinu, með reiknaða húsaleigu á bensíngjöfinni, en reiknuð húsaleiga var eini undirliður húsnæðisliðarins sem hækkaði í þessum mánuði,“ segir í greiningu Arion banka. 

Ódýrara að fljúga

Ferðaliðurinn lækkaði umfram væntingar og þar vó þyngst lækkun flugfargjalda, en flugfargjöld til útlanda lækkuðu um 8,5 prósentustig milli mánaða á meðan fargjöldin innanlands lækka um 11,5 prósentustig. 

Það sem vekur sérstaka athygli greiningadeildarinnar er lækkun á rekstrarkostnaði bifreiða. Þar skiptir vissulega máli að bensínverð lækkaði en það sem vegur þyngra er umtalsverð lækkun á varahlutum, þá sérstaklega hjólbörðum sem lækkuðu um 11,5% í verði. Það liggur beinast við að rekja þessa lækkun til aukinnar samkeppni, þó gengisstyrkingin hafi einnig hafa lagt lóð á vogarskálirnar að mati greiningardeildar Arion banka.