Skandinavíski fasteignamarkaðurinn er að mörgu leyti alltof hátt verðlagður. Fasteignaverð í Noregi er allt að 40% of hátt og fasteignaverð í Svíþjóð allt að 30% of hátt. Þetta kemur fram í skýrslu Morgan Stanley sem norrænir fréttamiðlar á borð við E24 og FinansWatch hafa fjallað um að undanförnu.

Í Noregi kemur skýrslan rétt eftir að tölur um verðþróun birtust fyrir mars mánuð sem sýndu að verð færi hækkandi á ný eftir nokkra mánuði með skörpum lækkunum. Þetta mat Morgan Stanley er svipað og þær tölur sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur áður sett fram.

Skýrsla Morgan Stanley bendir á hætturnar við mikla skuldsetningu íbúðareigenda á Norðurlöndunum og telur að hún geti orðið stórt vandamál ef markaðurinn réttir sig af.

Danski húsnæðismarkaðurinn virðist í betri málum en þar er verð talið minna en 10% of hátt. Þar er þó ekki öll sagan sögð því danskir íbúðareigendur eru á meðal þeirra skuldsettustu. Fasteignaverð lækkaði einnig meira í Danmörku í kjölfar efnahagskrísunnar 2008 heldur en í Noregi og Svíþjóð.