Miklar verðsveiflur á húsnæðismarkaðnum hafa haft skaðleg áhrif á húsnæðismarkaðinn en þær orsakast annars vegar af ytri efnahagsaðstæðum og hins vegar af mikilli sveiflu í uppbyggingu húsnæðis. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu stjórnvalda um stöðu og þróun húsnæðismála hér á landi.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, mun fjalla um skýrsluna á Húsnæðisþingi klukkan 13:00 í dag en þingið er nú í fullum gangi á Hótel Nordica.

Húsnæðiskostnaður er stærsta neysluvara almennings en húsnæðiskostnaður nemur að meðaltali 30% útgjalda heimilanna í landinu. Það er um þrisvar sinnum meira en fer til matarinnkaupa og um 10 sinnum meira en fer í föt.

Tekjuháir eru jafn líklegir og áður til að eiga fasteign en einungis um 40% tekjulágra eiga fasteign miðað við 60% árið 2012. Helsti vandi margra á íbúðamarkaði í dag er skortur á eigin fé og raunhæfir möguleikar til að afla þess.

Í skýrslunni segir að markmið stjórnvalda sé að stuðla að stöðugleika á húsnæðismarkaðnum.

„Skýrari rammi hefur myndast utan um húsnæðismál á undanförnum árum og aðkoma stjórnvalda að húsnæðismálum er nú í auknum mæli byggð á stefnumótun. Markmiðið með stefnumótun í húsnæðismálum er ekki síst að auka stöðugleika. Tækifæri eru til að gera enn betur í þeim efnum og í því samhengi má nefna aðgerðir til að lækka byggingarkostnað og auka uppbyggingu húsnæðis fyrir alla félagshópa," segir í skýrslunni.