Skýrsla fasteignafélagsins Zillow Inc. sýnir að fasteignaverð í Bandaríkjunum hafi hækkað á 2. ársfjórðungi miðað við sama tímabil árið á undan. Þetta kemur fram á vef Wall Street Journal.

Nemur hækkunin að meðaltali um 0,2%. Er það í fyrsta sinn sem húsnæðisverð hækkar í 57 mánuði. Mesta hækkunin var í Phoenix og Miami um 6%.

Verðið hækkaði hins vegar um 2,1% á milli fyrsta og annars ársfjórðungs, sem er mesta hækkun frá árslokum 2005.

Könnun WSJ sýnir að í 28 fylkjum sem blaðið kannaði hefur óseldum íbúðum fækkað. Í 2/3 fylkjanna hefur þeim fækkað um meira en 20%. Ástæður þess eru helst þær að bankar taka yfir minna af húsnæði nú en áður og húsnæðiseigendur vilja ekki selja í sama mæli og áður.