Húsnæðisverð í Bretlandi féll um 1,4% í nóvember en um er að ræða mestu lækkun á milli mánaða frá því í byrjun kórónuveirufaraldursins, að því er kemur fram í frétt The Times. Húsnæðisverð lækkaði töluvert umfram væntingar hagfræðinga sem höfðu spáð 0,3% lækkun á milli mánaða.

Um er að ræða þriðja mánuðinn í röð sem vísitala Nationwide yfir meðalverð húsnæðis í Bretlandi lækkar. Húsnæðisverð í Bretlandi lækkaði síðast þrjá mánuði í röð í kjölfar fjármálakreppunnar árið 2008.

Meðalverð íbúðaverðs í Bretlandi samkvæmt vísitölu Nationwide var 263.788 pund í nóvember eða um 45,6 milljónir króna miðað við gengi dagsins.

Árshækkun vísitölunnar mældist 4,4% í nóvember og hefur ekki mælst minni frá því í ágúst 2020. Ársverðbólga húsnæðis í Bretlandi var yfir 14% í vor.

Aðalhagfræðingur Nationwide segir að enn gætir áhrifa frá afleiðingum fjáraukalaga ríkisstjórnar Liz Truss í september en húsnæðisvextir hækkuðu töluvert í kjölfarið.

„Þó fjármálamarkaðir hafi náð jafnvægi aftur þá eru vextir á nýjum húsnæðislánum enn háir og markaðurinn hefur misst móðinn. Mun erfiðara er fyrir tilvonandi kaupendur að ráða við verðið á markaðnum en heimilsbókhald flestra er þegar undir þrýstingi vegna hárrar verðbólgu.“

Meira en 85% af húsnæðislánum í Bretlandi eru með fasta vexti, flest til tveggja eða fimm ára. Stór hluti þeirra er með fastvaxtatímabil sem rennur út á næsta ári og því eru áhrif vaxtahækkana ekki kominn fram að fullu.