Björn Bragi Mikkaelsson var úrskurðaður gjaldþrota í héraðsdómi Reykjaness 7. nóvember síðastliðinn. Björn Bragi er þekktastur fyrir að hafa lagt hús sitt á Álftanesi í rúst frammi fyrir sjónvarpsmyndavélum á þjóðhátíðardaginn 17. júní árið 2009. Hann sagði í fjölmiðlum engu hafa að tapa. Erlend lán hafi hvílt á húsinu. Hann hafi reynt að semja við viðskiptabanka sinn en ekki verið hlustað á hann þar. Húsið missti Björn Bragi á uppboði skömmu eftir bankahrunið.

Í janúar í fyrra dæmdi héraðsdómur Reykjaness Björn Braga í 18 mánaða fangelsi fyrir eyðilegginguna á húsinu, fyrir að hafa stungið undan skatti, fyrir fjársvik og brot gegn bókhaldslögum í rekstri þrotabúsins Sun House, fyrirtækis sem var í hans eigu, 4,5 milljónir króna. Þá var Björn Bragi dæmdur til að greiða fólki sem hafði ætlað að kaupa innflutt einingahús fyrir milligöngu hans um 14 milljónir króna vegna fjársvika. Samtals hljóðaði fjárhæðin sem hann var dæmdur til að greiða upp á um 19 milljónir króna auk málskostnaðar.

Héraðsdómur sagði Björn Braga ekki hafa átt sér neinar málsbætur. Brot hans hafi verið stórfelld og hann valdið einstaklingum miklu tjóni. Að því viðbættu hafi húsið sem hann eyðilagði á Álftanesi kostað sitt.

Í Lögbirtingablaðinu á föstudag kemur fram að Björn Bragi sé óstaðsettur í hús.