Ben Bernanke hefur ekki tekist að hleypa lífi í húsnæðismarkaðinn þrátt fyrir miklar vaxtalækkanir að undanförnu. Bandaríski Seðlabankinn hefur lækkað vexti fimm sinnum síðan í september síðastliðinn, en engu að síður hafa vextir á húsnæðislánum frekar hækkað. Nýkaup á húsnæði og endurfjármagnanir myndu án efa hleypa lífi á ný í bandarískt efnahagslíf, en Bloomberg greinir svo frá.

Vextir á dæmigerðu húsnæðisláni til 30 ára með föstum vöxtum hefur hækkað úr 5.5% þann 24. janúar í 6.37% í dag, að því að er kom fram í frétt hjá Mortage Bankers Association. Sérfræðingar segja að bankamenn reyni einfaldlega að halda vaxtamun eins miklum og mögulegt er þessi dægrin, sama hversu mikið Seðlabankinn lækkar vexti.

Vaxtamunur 10 ára ríkisskuldabréfs og 30 ára húsnæðisláns ekki verið svo mikill lengi

Síðastliðin 10 ár hefur meðalvaxtamunur á bandarísku 10 ára ríkisskuldabréfi og 30 ára húsnæðisláni með föstum vöxtum verið 1.75%. Í síðustu viku náði mismunurinn 2.83%, þannig að húsnæðislán í Bandaríkjunum eru afar dýr í dag í sögulegu samhengi.