Í Morgunkorni Íslandsbanka kemur fram að hugsanlegt sé að nýju íbúðalánin sem bankarnir bjóða muni leiða til aukinnar stöðutöku íslenskra heimila á hlutabréfamarkaðinum. Með lánunum gefst íbúðaeigendum betra færi en áður á að losa um eigið fé sem bundið er í húsnæðinu og nýta til annarra þátta. Nokkuð hefur verið rætt um möguleika þess að þetta fjármagn fari í aukna neyslu. Hitt er hins vegar einnig líklegt að þetta fé muni leita inn á hlutabréfamarkaðinn. Hlutabréf hafa hækkað mikið að undanförnu og þátttaka einstaklinga á markaðinum hefur aukist. Nýju íbúðalánin leggjast á sveif með öðrum þáttum sem auka munu þátttöku einstaklinga enn freka á næstunni.

"Þessu til viðbótar er sú lækkun langtímavaxta sem nú er að eiga sér stað til þess fallinn að þrýsta verði hlutabréfa upp þar sem í lækkuninni felst að gerð er lægri ávöxtunarkrafa til flestra fyrirtækja. Þessir þættir munu því hjálpa til við að stuðla að enn frekari hækkun á hlutabréfamarkaðinum á næstunni en Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 94% á síðustu tólf mánuðum. Það sem einkennir verðþróun á hlutabréfamarkaði um þessar mundir eru væntingar um útrás stærstu fyrirtækjanna, fremur en horfur í núverandi rekstri þeirra," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.