Svo virðist sem undirmálalánamarkaðir í Bandaríkjunum kunni að ná ákveðnum stöðugleika en sala á notuðu húsnæði hækkaði í febrúar í fyrsta skipti í sjö mánuði að sögn Bloomberg fréttaveitunnar. Þá kemur fram að aukin sala komi í kjölfar lækkunar á húsnæðisverði vestanhafs.

Bloomberg hefur eftir ónafngreindum viðmælenda sínum að lánamarkaðir kunni að ná stöðugleika fyrr en vonast hafði verið til. Gert hafði verið ráð fyrir aukinni sölu seinna á þessu ári en svo virðist, að mati viðmælenda Bloomberg að lánamarkaðir kunni að taka við sér fyrr.

Sala á notuðu húsnæði hækkaði um 2,9% frá því í janúar en hafði þá lækkað um 8,2% á 12 mánaða tímabili. The Guardian í Bretlandi hefur þó eftir Lawrence Yun, yfirhagfræðing National Association of Realtors að varast beri að lesa of mikið út úr einum mánuði.

Hann segir að fylgjast þurfi náið með húsnæðismörkuðum í Bandaríkjunum næstu misseri og sjá hvort sala á húsnæði nái einhverjum skriðþunga. „Við búumst ekki við hækkun fyrr en á seinni hluta árs en hækkun nú færir vissulega stöðugleika á markaði,“ sagði Yun.

Hann sagði að kaupendur væru að nýta sér aukin viðmið á lántöku upphæðum. Á móti komi að reglur um lánveitingar hafi verið hertar mjög mikið sem geri lántökum erfiðara fyrir.