Ekkert lát er á verðlækkunum á bandarískum húsnæðismarkaði. S&P/Chase-Shiller-fasteignavísitalan sýnir að húsnæðisverð féll um 14% á fyrsta ársfjórðungi þessa árs borið saman við sama fjórðung árið 2007.

Um er að ræða mestu árslækkun í tuttugu ára sögu fasteignavísitölunnar.

Húsnæðisverð lækkaði jafnframt um 6,7% frá því á fjórða ársfjórðungi síðasta árs. Lækkunin var jafnvel enn meiri, sé aðeins horft til tíu stærstu borga Bandaríkjanna: Húsnæðisverð lækkaði þá um 15% á milli ára og um 2,4% á milli mánaða.

Sala á nýju húsnæði jókst hins vegar um 3,3% í apríl, en er þó 42% minni en fyrir ári síðan. Það er mesta minnkun í þeim flokki milli ára í tæplega 27 ár.

Reuters hefur eftir viðmælanda sínum um málið að enn sé engin ástæða til að ætla að ástandið á húsnæðismarkaði sé orðið stöðugt.

__________________________________________________

Nánar verður fjallað um úttekt um þróun fasteigna og hlutabréfaverðs í úttekt Viðskiptablaðsins á morgun.