Húsnæðismarkaðurinn mun ekki ná sömu hæðum og hann var í fyrir lánsfjárkreppuna fyrr en að sex til sjö árum liðnum. Þetta kom fram í máli eins efnahagsráðgjafa Gordon Brown, forsætisráðherra Englands. Telegraph segir frá þessu í dag.

Steven Nickell fer fyrir nefnd skipaðri af forsætisráðuneytinu sem hefur það markmið að finna lausnir á  vandamálum á húsnæðismarkaði. Nickell segir fjölskyldur þurfa að bíða til 2015 áður en húsnæðismarkaðurinn tekur aftur flugið.

Nickell lýsti yfir miklum áhyggjum af því að fyrstu kaupendur myndu halda að sér höndum  í nokkuð langan tíma. Ástæðan er sú að fólk veigrar sér við að festa kaup á eign sem mun að öllum líkindum falla í verði í náinni framtíð.

Einnig eru fjármögnunarkjör langt frá því að vera hagstæð. Því þurfi að bíða „ekki nokkra mánuði, heldur nokkur ár, þar til að húsnæðismarkaðurinn nær sér á strik.“