Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 3,1% í nóvember, samkvæmt upplýsingum frá Fasteignamati ríkisins.

?Kaupþrýstingur hefur sennilega hækkað íbúðaverð í nóvember þar sem áhugasamir flýta fyrirhuguðum kaupum sínum af ótta við að vaxtahækkun sé framundan. Sá ótti hefur þó ekki gengið eftir nema að hluta enn sem komið er," segir greiningardeild Íslandsbanka.

Verð á fjölbýli hækkaði um 2,5% í mánuðinum en verð á sérbýli hækkaði meira eða um 5%.

Greiningardeild Íslandsbanka segir að íbúðaverð lækki oft lítillega í desember og það má sennilega rekja til minni veltu á íbúðamarkaði í kringum jólin.

?Nú virðist hið gagnstæða þó vera uppi á teningnum. Velta hefur aukist verulega á íbúðamarkaði það sem af er desember og mikið líf virðist einkenna markaðinn. Ef vaxtahækkun á íbúðalánum reynist ekki almenn og hærri en þegar hefur komið fram, þá virðist almenn verðlækkun á íbúðarhúsnæði fremur ólíkleg á næstu mánuðum í ljósi mikillar kaupgleði neytenda um þessar mundir," segir greiningardeild Íslandbanka.

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 35,5% á síðustu tólf mánuðum og verið einn helsti verðbólguvaldurinn í hagkerfinu, segir greiningardeildin.