Húsnæðisverðbólga í Bretlandi var 4,8% í desember á ársgrundvelli og hefur ekki verið minni í tvö ár samkvæmt Rightmove húsnæðisverðvísitölunni sem var birt í dag. Í Morgunkorni Glitnis segir að vísitalan hafi lækkað um 3,2% frá fyrra mánuði en hún hefur ekki lækkað meira á milli mánaða frá því að farið var að birta vísitöluna fyrir sex árum síðan. Hægagangur á breskum húsnæðismarkaði bendir til þess farið sé að hægja á hagkerfinu vegna þess lausafjárvanda sem verið hefur á mörkuðum að undanförnu. Á miðvikudag mun Englandsbanki birta fundargerð frá síðasta fundi peningastefnunefndar bankans, en nefndin ákvað að lækka stýrivexti sína um 0,25 prósentustig 6. desember síðastliðinn og eru þeir nú 5,5%. Í fundargerðinni kemur fram hver atkvæðaskipting fundarmanna var og frekari rökstuðningur fyrir vaxtaákvörðuninni og munu markaðsaðilar leita vísbendinga um peningastefnu bankans á næsta ári í henni, samkvæmt því sem segir í Morgunkorninu.