Skýrar vísbendingar eru farnar að berast um að breski húsnæðismarkaðurinn sé farinn að hægja á sér sökum vaxtahækkana og óvissuástands sem ríkir á fjármagnsmörkuðum. Slík þróun mun auka líkurnar á því að einkaneysla almennings - sem hefur stuðlað að 15 ára samfelldum hagvexti á Bretlandi - dragist verulega saman.

Húsnæðisverð í ágúst lækkaði á milli mánaða í fyrsta skipti í tvö ár, að því er fram kemur í nýrri skýrslu sem unnin var af hinni Konunglegu stofnun löggiltra mælingarmanna (RICS). Niðurstöður skýrslunnar gefa til kynna að breski húsnæðismarkaðurinn sé farinn að hægja á sér eftir gríðarmiklar hækkanir undanfarin tíu ár. Hins vegar er London ein helsta undantekningin í þessum efnum; húsnæðisverð þar hefur í flestum tilvikum staðið í stað eða farið hækkandi og söluhorfur eru enn taldar góðar, segir í skýrslunni.

Í könnun RICS kemur fram að mælingar í ágústmánuði sýni að húsnæðisverð hafi lækkað í tæplega 2% fleiri tilfellum en þar sem vart var við hækkanir. Fyrirspurnir frá nýjum húsnæðiskaupendum hafa jafnframt ekki verið færri í þrjú ár, sem er talið endurspegla þá óvissu um að ástandið á fasteignamarkaðinum muni fara versnandi ef áframhald verður á þeirri lausafjárþurrð sem einkennt hefur fjármagnsmarkaði undanfarin misseri.

Skýrslan eykur líkurnar á óbreyttum vöxtum
Auk umrótsins á alþjóðlegum fjármálamörkuðum eru ástæður lækkandi húsnæðisverðs raktar til þess að áhrifin af stýrivaxtahækkunum Englandsbanka séu farin að skila sér, en í júlímánuði voru vextir hækkaðir í 5,75% og hafa ekki verið hærri í sex ár. Bloomberg-fréttaveitan hefur eftir Ian Perry, talsmanni RICS, að það muni draga enn frekar úr umsvifum á húsnæðismarkaðinum. "Mögulegir húsnæðiskaupendur eiga eftir að verða varkárari á meðan þeir bíða eftir því hvaða áhrif stýrivaxtahækkanir og lausafjárþurrð á mörkuðum muni hafa fyrir fjármál heimilanna," sagði Perry.

Óvissuástand á fjármálamörkuðum hefur gert það að verkum að vextir á skammtímalánum á millibankamarkaði í London hafa hækkað mikið síðustu vikur og þriggja mánaða LIBOR vextir í pundi eru nú 125 punktum hærri en 5,75% stýrivextir Englandsbanka. Slíkur vaxtamunur hefur ekki sést í meira en tuttugu ár. Financial Times hefur það eftir hagfræðingum að hin nýja skýrsla RICS muni væntanlega hafa töluverð áhrif á næstu stýrivaxtaákvörðun Englandsbanka, ekki síst í ljósi vísbendinga um að vaxandi svartsýni sé á meðal markaðsaðila um horfur til lengri tíma. Flestir hagfræðingar eiga von á því að Englandsbanki muni halda stýrivöxtum óbreyttum í 5,75% á þessu ári - en ekki er langt síðan jafnvel var gert ráð fyrir tveimur vaxtahækkunum á árinu.

Hærra hlutfall launatekna í húsnæðisafborganir
Dow Jones-fréttaveitan segir að RICS hafi nýlega greint frá því kaupendur að sinni fyrstu íbúð þyrftu að meðaltali að eyða 44% af launatekjum sínum í hverjum mánuði í afborganir af húsnæðislánum, sem er með því hæsta sem mælst hefur á síðastliðnum fimmtán árum. Ef hins vegar er horft til allra húsnæðiseiganda á Bretlandi er hlutfallið 17% - hið hæsta síðan árið 1992 - samanborið við 24% í Bandaríkjunum. Hagfræðingar gera ráð fyrir því að þetta hlutfall muni aukast á næstu misserum.

Howard Archer, aðalhagfræðingur rannsóknarfyrirtækisins Global Insight í London, telur aftur á móti mikilvægt að oftúlka ekki um of niðurstöður skýrslunnar fyrir breska húsnæðismarkaðinn. Archer gerir ráð fyrir því að húsnæðisverð fari smám saman lækkandi á komandi mánuðum en eftir það muni stöðugleiki nást á markaðinum og í kjölfarið muni hann einkennast af "mjög litlum hækkunum".