Flestir hafa tekið eftir fréttum af snekkju Paul Allen, annars stofnenda Microsoft, sem stödd var hér á landi fyrir stuttu. Snekkjan þykir engin smásmíði og er með þeim flottari sem framleiddar eru.

Hins vegar er það ekki ókeypis að reka slíka snekkju. Á vef CNN, í frétt undir lið um fjármál einstaklinga, má finna stutta umfjöllun um mögulegan kostnað við rekstur snekkju. Þar er þó um töluvert minni snekkju að ræða eða um 130 feta snekkju. Til samanburðar er snekkja Paul Allen um 413 fet.

Hefðbundin snekkja, tæplega 130 feta, kostar um 6,7 milljónir Bandaríkjadala samkvæmt vef CNN. Hins vegar getur árlegur rekstrarkostnaður slíkrar snekkju verið yfir 1 milljón dala.

Vissulega fer kostnaður eftir því hversu mikil snekkjan er notuð. Hins vegar má gera ráð fyrir því að skipstjóri slíkrar snekkju fái um 145 þúsund dali í laun á ári, auk þess sem 1. stýrimaður fær um 70 þúsund dali. Þá má gera ráð fyrir því að það kosti um 55 þúsund dali að vera með kokk um borð og um 35 þúsund dali fyrir þjón.

Loks má gera ráð fyrir um 180 þúsund dölum í eldsneytiskostnað, 240 þúsund dölum í hafnargjöld, 300 þúsund í tryggingar.

Það má því hæglega segja að hér sé um áhugamál ríka mannsins að ræða.

Eins og áður segir er hér um að ræða öllu minni snekkju en er í eigu Paul Allen. Algengt er að saldánar og meðlimir Saudi-arabísku konungsfjölskyldunnar eigi stórar og glæsilega snekkjur en oft er gert grín að því að Paul Allen og Roman Abramovich, eigandi Chelsea, séu meðal fáu „hvítu“ mannanna í hópnum yfir eiguendur stærstu snekkjanna. Eins og gefur að skilja má gera ráð fyrir því að það kosti yfir 1 milljón dala að reka snekkjur þeirra árlega.