Margir velta því nú fyrir sér hvað Baugur ætli sér með 4,87% eignarhlut sínum í Debenhams. Í grein Andrew Hill í Financial Times, veltir hann því fyrir sér hvort um áhrifafjárfestingu, spákaupmennsku eða fyrsta skref í átt að yfirtöku sé að ræða og telur alla möguleikana jafn líklega.

Hann nefnir að Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs, eigi nú mikinn fjölda minnihlutaeigna í smásölufyrirtækjum. "Stundum selur Baugur og stundum kaupir fyrirtækið allt félagið, eins og varð tilfellið með House of Fraser," segir Hill.

Hann segir yfirtökuna á House of Fraser vega á móti líkindum þess að Baugur geri tilraun til yfirtöku á Debenhams, þar sem HoF þurfi alla einbeitingu fyrirtækisins. En Jón Ásgeir hefur raunar sjálfur lýst því yfir í Financial Times.

Hill segir hins vegar að yfirtakan á HoF gefi Baugi ákveðinn stökkpall inn í verslunarumhverfi Bretlands og þannig hafi fyrirtækið ef til vill öðlast betri skilning um hvað mætti betur fara í rekstri Debenhams. Einnig eigi Baugur þegar reynsluríkt starfsteymi sem hafi aukna getu til að takast á við stærri áskoranir í smásöluumhverfinu.

"Það sem meira er, eiga gömlu eigendur Debenhams næstum 30% hlut í fyrirtækinu og væri sala á þeim hlut hreinn hagnaður, hvað svo sem söluverðið væri. Eigendurnir höfðu þegar hagnast á fjárfestingunni, sem umdeilt er, með skuldsettri endurfjármögnun skömmu áður en fyrirtækið var skráð á markað. Með öðrum orðum ætti yfirtaka ekki að standa á þessu," segir Hill.

Yfirtökuboð í House of Fraser barst innan við mánuði eftir að Baugur festi kaup á hlut í fyrirtækinu. En Hill segir að þar sem hlutabréf í Debenhams hafi lækkað svo mikið frá því að fyrirtækið var skráð hafi Jón Ásgeir nú nægan tíma til þess að ákveða næsta leik, þó svo að hluthafar Debenhams bíði átekta með mikilli eftirvæntingu.

Við skráningu voru bréf Debenhams á verðinu 195 pens á hlut. Í nóvember fóru bréfin yfir 200 pens á hlut, en eftir það tók að halla undan fæti. Eftir kaup Baugs tóku bréfin að hækka á ný og stóðu í 139,25 um miðjan dag í gær.