Íslensk stjórnvöld hafa að undanförnu átt í viðræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF) á tvennum vígstöðvum. Vestur í Bandaríkjunum hefur Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra verið með fylgdarliði í viðræðum við háttsetta stjórnendur sjóðsins. Hér á landi er stödd sérfræðinganefnd frá IMF sem hefur hitt íslenska ráðamenn á fjölmörgum fundum síðustu daga.

Á sama tíma er sendinefnd fremur lágt settra embættismanna undir forystu sviðsstjóra í Seðlabankanum farin til Moskvu að ræða hugsanlega fjögurra milljarða króna lánveitingu Rússa til Íslendinga. Hver sem niðurstaða þeirra viðræðna verður er talið hæpið að peningar frá Rússlandi nægi til að endurvekja það alþjóðlega traust sem íslenskt viðskipta- og efnahagslíf þarf nú á að halda öðru fremur.

Hvað kostar aðgöngumiðinn?

Í viðræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er verið að ræða hvaða skilyrði íslensk stjórnvöld þurfi að uppfylla til þess að IMF fallist á að veita Íslendingum þá aðstöðu sem orðið geti forsenda þess að hjól efnahagslífsins fari að snúast á nýjan leik, virkur gjaldeyrismarkaður verði til. Aðkoma IMF er af mörgum talin nauðsynleg til þess að skapa nægilegt traust til þess að Íslendingar þyki gjaldgengir í alþjóðlegum viðskiptum á ný eftir hrun bankastofnana landsins og ótta stjórnvalda nágrannaríkja við að Íslendingar hyggist ekki virða að fullu skuldbindingar sínar vegna bankanna.

Óvissa ríkir um framhald mála og þau skilyrði sem sjóðurinn kann að setja fyrir lánveitingu við Íslendinga. Fréttir sem bárust í gær virðast stangast á. Ljóst er þó talið að IMF muni gera kröfur til þess að Íslendingar taki á sig fulla ábyrgð á innistæðum í útibúum íslenskra banka erlendis. Hvort sem sú ábyrgð verði leidd af ákvæðum íslenskrar löggjafar eða á þeirri þjóðréttarlegu skuldbindingu sem hvílt hafi á Íslandi til þess að halda uppi trúverðugu eftirliti með þeirri starfsemi sem fram

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .