Tveir af hverjum þremur viðskipta- og hagfræðingum eru með föst laun á mánuði óháð vinnuframlagi, að því er fram kemur í tímaritinu Hagur, tímariti Félags viðskiptafræðinga- og hagfræðinga.

Fram kemur í launakönnun félagsins að hjá þessum hópi er yfirvinna og aðrar aukagreiðslur innifaldar í launum. Fjórðungur er með grunnlaun og breytilegar aukagreiðslur. Ekki er hins vegar algengt að viðskipta- og hagfræðingar fái yfirvinnu greidda samkvæmt unnum tímum. Aðeins 12% eru með slíkt fyrirkomulag í sínum störfum. Hjá jafnmörgum er engin yfirvinna í boði. Hjá yfir 70% viðskipta- og hagfræðinga er yfirvinna innifalin í launum.

Flestir með síma

Þátttakendur í könnuninni gátu merkt við allt að sjö tegundir af aukagreiðslum sem voru innifaldar í heildarlaunum þeirra. Tæp 40% viðskipta- og hagfræðinga eru ekki með neinar af þeim sjö aukagreiðslum sem taldar eru upp í spurningunni. Þriðjungur viðskipta- og hagfræðinga er með fastan ökutækjastyrk og nærri 12% eru með bifreiðahlunnindi.

Langalgengustu hlunnindin eru sími á vegum fyrirtækis og/eða endurgreiddur símakostnaður. Tæplega fjórir af hverjum fimm njóta slíkra hlunninda. Tæplega tveir af hverjum þremur fá hlunnindi vegna líkamsræktar eða heilsueflingu hjá vinnuveitendum. Aðeins lægra hlutfall er með tölvu heima eða fartölvu á vegum vinnuveitanda. Þá er um helmingur með hlunnindi í formi nettengingar á sínu heimili.

Tímaritið Hagur fylgdi með Viðskiptablaðinu í vikunni.