Nú þegar embætti sérstaks saksóknara er búið að gefa út ákærur í tveimur stórum markaðsmisnotkunarmálum er vert að velta þeirri spurningu upp hvað er næst á dagskrá hjá embættinu. Þetta er þó gert í ljósi þess að þeir einir vita hverjir verða næstir í skotlínu embættisins sem starfa þar.

Fyrir áramót gaf embætti sérstaks saksóknara það upp að um tíu stór mál væru á lokastigi rannsóknar og því styttist tíminn þar til ákærur yrðu gefnar út eða mál yrðu látin niður falla ef ekki gæfist tilefni til ákæru. Einnig kom fram að málin tengdust flest hruninu og föllnu bönkunum þremur, Landsbanka, Glitni og Kaupþingi. Búið er að ákæra í markaðsmisnotkunarmálum tengdum Glitni og Kaupþingi og er því ekki út í hött að ætla að næsta stóra mál tengist gamla Landsbankanum.

Með þetta í huga og það að síðustu tvö mál hafa snúið að meintri markaðsmisnotkun má ætla að mál fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, Halldórs J. Kristjánssonar og Sigurjóns Árnasonar, og átta annarra fyrrverandi starfsmanna bankans, sé ofarlega á listanum. Eins og gefur að skilja gefur sérstakur saksóknari ekki upp fyrirfram hvern á að ákæra næst, en eftir því sem næst verður komið hafa engar ákærur verið birtar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.