Hópur hagfræðinga sem mynda þýsku hugveituna DIW segja mögulegt að leysa skuldakreppuna á evrusvæðinu með innleiðingu auðlegðarskatts á einstaklinga innan Evrópusambandsins. Hugmyndinni var varpað fram í sumar og hefur hún fengið byr undir báða vængi í Þýskalandi upp á síðkastið enda talið að slíkt geti dregið úr ójöfnuði.

Málið er rifjað upp í nýjasta tölublaði breska vikuritsins Economist .

Blaðið segir pælingar af þessum toga grundvallast á skilgreiningunni hvað það er að vera ríkur. Bent er á að DIW miði við 250 þúsund evrur, jafnvirði 39 milljóna króna, á einstakling en hópur fólks í Þýskalandi sem undir lok mánaðar ætlar að þrýsta á að skatturinn verði innleiddur, miðar auðlegðina hins vegar við eina milljón evra, jafnvirði  tæpar 160 milljónir íslenskra króna. Economist segir málið hafa ratað víða í þýskri umræðu enda skatttekjur þar sjaldan meiri en nú um stundir. Á sama tíma og rætt sé um innleiðingu skattsins sé ríkinu óheimilt að leggja aukaálögur á í þeim tilgangi einum að stækka sjóði sína.