Í áramótatímariti Viðskiptablaðsins fara nokkrir Íslendingar yfir árið sem leið. Sunna Valgerðardóttir, fréttamaður á RÚV, segist sátt við árið 2014 sem hafi verið rosalegt.

Viðburður ársins? Eldsvoðinn í Skeifunni. Vinsæll á Facebook. Sameinaði reykvískar fjölskyldur sem huggulegur varðeldur. Og eins konar júlí-Júróvisjon við sjónvarpsskjáinn fyrir landsbyggðina.

Hneyksli ársins? Rassinn á Kim Kardashian á forsíðu einhvers blaðs. Djók. Þetta var mjög fínn rass.

Frétt ársins? Mig langar rosa mikið að gefa Íslandi kredit hérna og segja gosið í Holuhrauni og Bárðarbunga. En ég gef íslensku samfélagi kredit í staðinn og segi Lekamálið.

Klisja ársins? Björn Ingi Hrafnsson kaupir DV sama dag og innanríkisráðherra segir af sér vegna fréttaskrifa DV.

Hetja ársins? Talningar-Tómas.

Óvænt ánægja ársins? Stevíu-kók á amerískum dögum í Hagkaupi.

Stjórnmálamaður ársins? Rob Ford, borgarstjórinn í Toronto.

Lag ársins? Hjálpum þeim. Gríðarlega gott lag og á enn vel við á margan hátt, þrjátíu árum síðar. Svo syngjum við það í kórnum mínum sem ég byrjaði í á árinu og það er gaman.

Bömmer ársins? Ebólan.

Heilt yfir, hvernig var árið? Rosalegt. Um síðustu áramót stóð ég við Landakotskirkju og lofaði sjálfri mér að 2014 yrði gott, gefandi og skemmtilegt og það rættist. En það var líka erfitt; mikil vinna, nám og þriggja daga rjúpnaveiðiferð sem skilaði mér ekki agnarögn í jólamatinn. En ég er sátt.