Donald Trump var kjörinn forseti Bandaríkjanna í morgun. Miðað við stefnumál Trump í kosningabaráttunni þá virðist ljóst að heimurinn komi til með að breytast á einn eða annan hátt. Ef að Trump hyggst framfylgja eitthvað af stefnumálum sínum — gæti forsetatíð hans haft mikil áhrif, innan Bandaríkjanna og utan landssteinanna. Breska ríkisútvarpið (BBC), hefur tekið saman lista yfir fimm hluti sem að gætu breyst undir forsetatíð Trump.

Þó ber að nefna að Trump er ekki alráður í Bandaríkjunum, og þyrfti stuðning þingsins til að framfylgja stefnumálum sínum. Einnig er hægt að velta því upp hvort að Trump komi til með að framkvæma þá hluti sem að hann talaði um í forsetakosningunum - og ef hann geri það, hve stóran hluta?

1. Frjáls viðskipti

Ef að Donald Trump fylgir eftir stefnumálum sínum varðandi milliríkjaviðskipti gæti það þýtt fráhvarf frá stefnu Bandaríkjanna varðandi fríverslun sem hefur verið nokkuð stöðug síðastliðna áratugi. Trump hefur meðal annars talað um að rifta fríverslunarsamningum Bandaríkjanna við hina ýmsu aðila, til að mynda NAFTA samninginn við Mexíkó og Kanada. Hann hefur einnig rætt um að draga Bandaríkin úr Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO).

2. Hlýnun jarðar

Trump hefur talað um að rifta Parísarsamkomulaginu sem var undirritað af 195 löndum síðastliðinn desember. Hann talaði einnig um að Bandaríkin myndi hætta þátttöku í allri aðild að öllum þeim verkefnum Sameinuðu þjóðanna sem kæmu til með að taka á heimshlýnun.

3. Lokun landamæra

Eitt af meginstefunum í kosningabaráttu Trump var það að nú ætti að taka á innflytjendum og stefnu Bandaríkjanna í þeim málaflokki. Hann talaði um að byggja landamæravegg við Mexíkó og flytja 11 milljónir ólöglega innflytjendur úr landi.

4. Nato

Trump hefur einnig talað um að Atlantshafsbandalagið væri úrelt og að Bandaríkin væru að bera alltof þungan bagga þegar kæmi að útgjöldum í samstarfinu. Skoðun Trumps er sú að Bandaríkin eigi ekki fyrir því að vernda ríki Evrópu og Asíu án þess að þau borguðu sjálf stærri skerf. Trump er ekki einn sem hefur þá skoðun, en hún er orðin tiltölulega víðtekin í Bandaríkjunum.

5. Rússland

Trump hefur talað fyrir því að losa um spennu milli Bandaríkjanna og Rússlands og þá sérstaklega við Pútin, forseta Rússlands. Hann hefur talað fyrir því að ríkin taki höndum saman til að berjast gegn hinu svokallaða íslamska ríki .