Steinmeier, forseti Þýskalands, hefur hvatt alla þingflokka landsins til þess að ræða saman að nýju og reyna að mynda stjórn. „Allir þeir sem eiga hlut að máli ættu að staldra við og hugsa að nýju afstöðu sína,“ sagði forsetinn. „Ég býst við að allir séu tilbúnir að talast við til þess að mynd ríkisstjórn í nánustu framtíð. Þeir sem bjóða fram og leitast eftir pólitískri ábyrgð í kosningum mega ekki flýja undan henni þegar þeir eru komnir með hana í hendurnar,“ sagði Steinmeier ennfremur að því er kemur fram á vef Bloomberg .

Í kjölfar þess að ekki náðist að mynda stjórn í Þýskalandi hefur fólk velt fyrir sér hvað sé í stöðunni í þessu burðarríki Evrópusambandsins. Viðskiptablaðið greindi frá því í morgun að slitnað hefði upp úr viðræðum Kristilegra demókrata, Græningja og Frjálslynda markaðshyggjuflokksins FDP eftir um fjögurra vikna viðræður.

Miðað við skiptingu þingsæta er ýmislegt í stöðunni en sex flokkar náðu inn á þing. Hins vegar þykir ekki líklegt að flokkurinn Valkostur fyrir Þýskaland, AfD, verði hluti af stjórnarmynstri en popúlískrar útlendingaandúðar hefur þótt gæta í málflutningi hans. Þá þykir einnig afar ólíklegt að reynt verði að mynda stjórn án Kristlegra demókrata, flokks Merkel.

Nú hefur forsetinn kallað eftir því að allir flokkarnir haldi áfram að tala saman til þess að mynda ríkisstjórn og því er ólíklegt að boðað verði til kosninga í bráð, því er helst þrennt talið geta komið til greina.

Steinmeier sem var háttsettur innan flokks Sósíaldemókrata áður en hann var kosinn forseti er talinn eiga möguleika á að þrýsta á gamla flokk sinn um að mynda ríkisstjórn yfir miðjuna með Kristilegum demókrötum. Sósíaldemókratar hafa þó þvertekið fyrir að vilja aftur í ríkisstjórn með Kristilegum demókrötum en hugsanlegt er að þeir láti segjast, leggist forsetinn á að slík stjórn verði mynduð á nýjan leik.

Þá er einnig í stöðunni að flokkarnir þrír sem áttu í viðræðum síðastliðinn mánuð, þ.e. Græningjar, Kristilegir demókratar og Frjálslyndir demókratar setjist aftur að samningaborðinu og finni leið til að ná saman. Þó er alls ekki öruggt að það sé mögulegt.

Að lokum hefur sá möguleiki einnig verið nefndur til sögunnar að Merkel gæti látið reyna á minnihlutastjórn enda gætu hinir flokkarnir fimm átt erfitt með að ná saman um mörg málefni. Þannig gæti hún fetað einstigið á miðjunni, en Merkel er þekkt fyrir baktjaldamakk, stjórnunarstíl raunhyggjunnar og yfirburðarfærni í samningum. Yrði það niðurstaðan er þó varla hægt að segja ríkisstjórnin yrði stöðug eins og Merkel hefur lofað að næsta ríkisstjórn verði.