Gísli Halldórsson, sjóðstjóri hlutabréfa hjá Íslandssjóðum, lítur yfir farinn veg og rýnir í helstu áhrifavalda á íslenskum hlutabréfamarkaði. Greininguna er hægt að lesa á vefsvæði VÍB .

Árið 2016 hefur ekki reynst gjöfult á hlutabréfamarkaði, þó að rekstur fyrirtækja hafi almennt gengið vel og mikill gangur hafi verið í hagkerfinu að mati Gísla. „Eftir 49% ávöxtun árið 2015 hefur úrvalsvísitalan lækkað um 7% frá áramótum leiðrétt fyrir arðgreiðslum. Þessi niðurstaða er ágætis áminning um að hlutabréf séu langtíma fjárfesting og sömuleiðis um mikilvægi vel dreifðra eignasafna,“ bendir hann á.

En hver eru þessi helstu atriði sem hafa haft áhrif á markaðinn? Hér tekur Gísli saman fimm atriði sem höfðu hvað mest á hlutabréfamarkaðinn hér heima þetta árið:

1) Styrking krónunnar

Í greiningu Gísla er tekið fram að krónan hafi verið ein af lykilbreytum ársins. „Frá áramótum hefur hún til að mynda styrktist um 16% á móti evru, 27% gegn pundi og 21% þegar litið er til sænsku krónunnar. Fyrir innlend rekstrarfélög hefur þessi styrking fyrst og fremst verið jákvæð enda auðveldað þeim lífið í miklum launahækkunum,“ segir þar.

Hins vegar hefur þetta haft neikvæð áhrif á þau fyrirtæki sem gera upp í erlendum myntum. „Bæði koma áhrifin fram, líkt og í tilfelli Marels, í formi þess að tekjurnar eru fyrst og fremst í öðrum myntum en krónu en hlutabréfin skráð í krónum og því lækkar virði tekna félagsins í krónum talið. Einnig hefur þetta líkt og í tilfelli Icelandair Group neikvæð áhrif rekstrarlega þar sem skekkja er á tekjum og kostnaði eftir myntum,“ er einnig tekið fram.

2) Aukin eftirspurn eftir fjármunum lífeyrisjóðanna

Lífeyrissjóðirnir eiga beint og óbeint allt að 65% af útgefnu hlutafé í skráðum félögum á markaði. Jafnframt er innflæði í sjóðina talsvert meira en útflæði. Þeir hafa ekki verið eins áberandi á hlutabréfamarkaði árið 2016.

„Að hluta til skýrist það af auknum heimildum til fjárfestinga erlendis sem telja um 50 milljarða frá áramótum. Þá hefur lífeyriskerfið lánað nettó 51 milljarð í sjóðsfélagalán,“ segir í greiningu VÍB.

3) Vaxtalækkanir eða ekki vaxtalækkanir?

Mikið hefur verið þrýst á Seðlabankann um að lækka stýrivexti á árinu. Ef a vextir væru lækkaðir, þýddi það að fjármögnunarkostnaður væri lægri og þeir gera einnig áhættumeiri fjárfestingakost vænlegri.

„Lækkandi vextir einir og sér eru því mjög jákvæðir fyrir hlutabréf þó forsenda vaxtalækkanna, sem er oft hægur gangur á hagkerfinu, séu það oft alls ekki. Í Seðlabankanum var kallinu svo loks svarað í ágúst og lækkuðu vextir um 0,5%. Væntingar hafa verið um meiri og frekari lækkanir en villa í verðbólgumælingu síðan í mars er einn af þáttum sem hafa hægt á þeirri hreyfingu. Þessar væntingar endurspeglast ágætlega í kröfuþróun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa upp á síðkastið,“ er einnig tekið fram.

4) Kjarasamningar

Launahækkanir höfðu áhrif á uppgjör fyrirtækja á markaði, sér í lagi hjá þeim sem að launakostnaður vegur þungt. Launahækkanir voru meiri en fjárfestar gerðu sér í hugarlund og hefur því starfsemi margra fyrirtækja, sér í lagi fjarskiptafélögum.

„Hugsanlegar vinnudeilur í byrjun árs 2017 hafa jafnframt spilað inn í væntingar fjárfesta,“ er tekið fram.

5) Kraftur í vexti ferðamanna

Útlit er fyrir að áframhaldandi kraftur verði í vexti ferðamannastraums til landsins á árinu. „Þetta þýðir að heildarfjöldi ferðamanna á ári nálgast 2 milljónir og að á árinu 2016 komi um hálfri milljón fleiri ferðamanna til landsins en árið 2015. Spár fyrir næsta ár gera jafnframt ráð fyrir vexti í kringum 30% og fyrir vikið gríðarlegri magnaukningu. Þetta hefur vitanlega styrkt stöðu hagkerfisins og mörg fyrirtæki hafa notið góðs af,“ er tekið fram.

Félagið N1 er líklega það sem hefur hagnast hvað mest af þessari aukningu af félögum á markaði. „Framlegð félagsins hefur stóraukist bæði í kjölfar stóraukinnar umferðar en ekki síður í formi aukinnar sölu á rækjusamlokum og lopavettlingum. Á sama tíma hefur svo einn stærsti hótelrekandi landsins og flugfélagið Icelandair lækkað um 32%. Þar hefur bæði hreyfing á krónunni komið sér illa ásamt hækkandi olíuverði en þar vigtar aukin samkeppni líka þungt. Þrátt fyrir að vöxtur ferðamanna sé 40% hefur nýting í vélum Icelandair dregist saman, mætti þar nefna sem dæmi þá staðreynd að sumarið 2016 voru 25 flugfélög með áætlunarflug til landsins. Síst virðist ætla draga úr krafti þessa en eitt dæmi þess er 71% aukning á flugsætum í boði til landsins í janúar 2017.“