Stór skref í undirbúningi fyrir nýja framtíð í íslenskum orkuiðnaði voru stigin fyrr á þessu ári. Tvö leyfi fyrir leit að olíu á Drekasvæðinu voru gefin út í byrjun árs og hið þriðja er í bígerð. Næstu 7-10 ár munu væntanlega skera úr um það hvort Íslendingar muni finna olíu í vinnanlegum mæli á svæðinu.

Leyfin voru gefin út í byrjun árs 2013 en það þriðja verður svo að öllum líkindum gefið út í upphafi næsta árs. Leyfin eiga það öll sameiginlegt að norska ríkisolíufélagið Petero verður þátttakandi með 25% hlut í öllum leyfunum í samræmi við samning íslenska og norska ríkisins.

Nokkur gjöld fylgja því að rannsaka Drekasvæðið. Fyrir leyfi til rannsókna þarf að borga 850.000 krónur og sé leyfið framlengt til vinnslu þarf að greiða 1.350.000 krónur til Orkustofnunar. Árlega skal svo greiða Orkustofnun eina milljón auk svæðisgjalds sem er byggt á flatarmáli svæðisins sem leyfishafar hafa leyfi til að rannsaka. Fyrstu sex árin eru greiddar 10 þúsund krónur á hvern ferkílómera en eftir það hækkar gjaldið um 10 þúsund krónur á ári á hvern ferkílómetra. Til að átta sig á umfangi svæðisgjaldsins má nefna að leyfi Ithaca Petroleum nær til 1.119 ferkílómetra og greiða þeir því rúmar 11 milljónir króna á ári fyrstu sex árin. Ef haldið er áfram og rannsóknir og/eða boranir standa enn yfir eftir 15 ár þá nema greiðslurnar 111 milljónum. Í tilviki Faroe Petroleum er svæðið meira en tvöfalt stærra eða um 2.704 ferkílómetrar. Því eru greiddar um 27 milljónir króna árlega vegna leyfisins.

Nánar má lesa um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins sem kom út á milli jóla og nýárs.