„Er ríkisstjórnin tilbúin til að endurskoða áform um stöðvun verksins ef Háskóli Íslands leggur fram sinn hlut í framkvæmdinni fyrr en áætlað er?“ spyr Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar. Hann lagði í gær fram fyrirspurn á Alþingi og krefur Illuga Gunnarsson menntamálaráðherra svara um Hús íslenskra fræða, sem á að hýsa Stofnun Árna Magnússonar. Búið er að grafa grunn hússins sem er á milli Hótels Sögu og Þjóðarbókhlöðunnar.

Helgi spyr m.a. hver heildarkostnaður við undirbúning og framkvæmdir við húsið er nú orðin, hver sé áætlaður kostnaður vil að fylla í grunn hússins og ganga frá lóðinni og hvað sé áætlað að greiða þurfi lægstbjóðanda í bætur verði ekki af verkinu.

Áætlað er að bygging hússins muni kosta rúma 3,4 milljarða króna og skiptist kostnaðurinn á milli mennta- og menningamálaráðuneytis og Háskóla Íslands. Í síðustu fjárlögum var felld niður 800 milljóna króna fjárheimild til verksins. Í fjárlögum fyrir næsta ár segir að framkvæmdin sé hlut af Fjárfestingaráætlun fyrir Ísland árin 2013 til 2015 en að áætlaðar tekjur sem áttu að fjármagna hana, s.s. sérstakt veiðigjald á auðlindaarð sjávarútvegsins, söluhagnaður og eignasala hafi ekki reynst byggðar á nægilega traustum grunni.