Frá því í byrjun sumars hafa átt sér stað fjögur frumútboð. Þetta eru Síldarvinnslan, Íslandsbanki, flugfélagið Play og nú síðast tölvuleikjaframleiðandinn Solid Clouds. Þó að þessi fyrirtæki gætu sennilega ekki verið mikið ólíkari eiga þau þó það öll sameiginlegt að hlutabréfagengi þeirra var töluvert yfir úboðsgenginu í kjölfar skráningar á markað, að Solid Clouds undanskildu en það ætti að koma í ljós í næst viku.

Nýjasta dæmið um þetta er Play sem var skráð á markað í morgun og er hlutabréfagengi þess þegar þetta er skrifað um 24,3 krónur en útboðsgengi bréfanna var á bilinu 18 til 20 krónur. Gengi bréfanna var því 22. til 35. prósentustigum yfir útboðsgenginu strax á fyrsta degi.

Frumútboðspopp

Baldur Thorlacius fjallaði um fyrirbærið í grein sem birtist í Vísbendingu í dag. Á ensku kallast þetta „IPO pop" og er almennt notað yfir hækkanir sem eiga sér stað á hlutabréfaverðum í kjölfar frumútboðs. Baldur kýs að kalla þetta frumútboðspopp og verður slíkt sama gert hér. Frá hruni hafa 18 frumútboð verið haldin og hefur „poppið“ í þeim verið að meðaltali um 8%. Tekið skal fram að Solid Clouds og Play eru ekki inni í meðaltalinu.

Öll félögin hækkuðu í kjölfar frumútboðs að fasteignafélögunum Eik, Reitum, Reginn og Heimavöllum undanskildum sem að lækkuðu öll. Þar af lækkuðu Heimavellir um 11%, Eik um 2%, Reitir um 1% og Reginn um 0,2%. Mesta poppið var með bréf TM en þau hækkuðu um 33%, þar á eftir kemur Íslandsbanki sem hækkaði um 20% og síðan Arion banki og Hagar sem hækkuðu um 18%.

Ástæðan fyrir poppinu er sú að verðlagningu er yfirleitt þannig hagað að hlutabréfaverð hækki aðeins eftir skráningu. Lækki hlutabréfaverð í kjölfar skráningar er hætt við að fjárfestum finnist þeir hafa verið sviknir. Hækki það of mikið er hættan sú að eldri hluthafar verði ósáttir við verðlagninguna í útboðinu og að félaginu skuli ekki hafa tekist að sækja meira fjármagn.

Það er þó hægara sagt en gert að verðleggja frumútboð. Óvissa, sem felst í því að fjárfestar geta ekki stólað á markaðsverð gerir það að verkum að erfitt er að slá verði á frumútboð. Þá spila markaðstæður og stemning einnig sinn part í verðlagningu. Til þess að bregðast við þessu þurfa umsjónaraðilar útboða að meta eftirspurn til að komast að niðurstöðu um verð.

Útboðsafsláttur?

Upp á síðkastið hefur umtalsvert verið rætt um afslátt í frumútboðum en það þarf ekki alltaf að vera svo. Í greininni bendir Baldur á að hægt sé að líta á afsláttinn sem verðmætaaukningu. Hluthafar óskráðra félaga eiga stundum erfiðara með að selja hluti og það getur tekið þá lengri tíma. Því gætu þeir neyðst til að selja á verði sem „endurspeglar ekki endilega undirliggjandi rekstur og framtíðarhorfur“.

Nýlegt dæmi er útboð Íslandsbanka sem lauk í síðasta mánuði. Hefði útboðið verið verðlagt þannig að bréfin myndu standa í stað eða lækka gæti það haft neikvæð áhrif á áhuga og verð í næstu útboðum á eftir, en yfirlýst stefna ríkisstjórnar er að selja það sem eftir er í Íslandsbanka við fyrsta tækifæri.

Sjá einnig: Eðlilegur útboðsafsláttur?

„Vel heppnuð skráning á markað skapar þeim einmitt verðmæti í formi seljanleika og betri verðmyndunar. Þau verðmæti endurspeglast yfirleitt í hærra markaðsverði. Þá getur skráningin einnig aukið fjármögnunarmöguleika sjálfra fyrirtækjanna, sem leiðir til lægri fjármögnunarkostnaðar, nýrra tækifæra og þar með hærra markaðsverðs,“ segir Baldur í greininni.